Í EMDR er unnið með minningar sem valda vanlíðan.
Byrjað er á því að fara yfir hvað það er þú vilt vinna með.
Meðferðaraðilinn spyr þig spurninga um áfallasögu þína. Hann spyr hvaða leiðir þú kannt til að hafa jákvæð áhrif á líðan þína.
Ef þörf krefur eru kenndar leiðir til að bæta líðan áður en áfallavinna hefst.
Unnið með minningar í EMDR meðferð
Þegar búið er að ákveða hvaða minningu skal vinna með, er spurt um ýmislegt sem tengist minningunni eins og til dæmis:
hvert versta augnablikið er í minningunni
hvaða neikvæða viðhorf varð til eða styrktist í atburðinum
hvaða jákvæða viðhorf þú værir frekar til í að hafa
hver tilfinningaleg áhrif minningarinnar eru
hversu mikið hún truflar þig
hvaða líkamlegu óþægindi koma fram við að hugsa um minninguna
Þegar þessi svör eru komin er skjólstæðingurinn beðinn um að hugsa um svörin sín á ákveðinn hátt. Því næst er beitt áreiti í formi augnhreyfinga, hljóðáreitis eða léttu “tappi” á hnén eða hendur.
EMDR meðferðin getur reynt á þegar/ef erfiðar tilfinningar koma upp í úrvinnslu en flestir finna mun á líðan sinni eftir einn tíma.
Ef þú hefur eingöngu lent í einu áfalli, tekur meðferðin yfirleitt um 1-3 tíma.
Flóknari EMDR meðferð
Þegar um flóknari áföll er að ræða, eins og til dæmis sí-endurtekin áföll eins og til dæmis:
heimilisofbeldi
erfiðan alkahólisma á æskuheimili
ítrekaða misnotkun eða annað
þá tekur meðferðin lengri tíma en flestir finna fljótt mun á líðan sinni til hins betra.
Skjólstæðingar lýsa oft miklum létti í kjölfari úrvinnslu og vellíðan í líkamanum.
Þá tala margir um sjálfstyrkingu þar sem neikvæð viðhorf til sín, annarra eða lífsins breytast í hjálplegri og uppbyggileg viðhorf sem styrkja einstaklinginn.
Ef áföllin eru mjög flókin getur þurft lengri undirbúningstíma. Allir meðferðaraðilar EMDR stofunnar með sérþekkingu á þeim aðferðum sem stuðst er við.
Hægt er að lesa um EMDR meðferð í bókinni Getting Past Your Past eftir Francine Shapiro, á vefsíðunum www.emdr.is www.emdr.com og www.emdria.org
Samantekt: Gyða Eyjólfsdóttir, Ph.D., sálfræðingur og sérfræðingur í klínískri sálfræði.
published with permission
Comments